Andleg kennsla og innsæið

Author

Ragnar Viktor Karlsson
w

Your Title Goes Here

Andleg kennsla og innsæið
Published 12.08.2023

Þegar þín andlega vakning hefst og þú ert tilbúin að vakna til sjálfsmeðvitundar, koma upp margar spurningar í hugann. Spurningar um hver þú ert, hver er tilgangur lífsins, hvert förinni sé heitið og hvað tekur við eftir þetta líf. Áhuginn á andlegum málefnum verður mikil og getur yfirtekið lífið um tíma. Til eru margar andlegar bækur sem hjálpa við andlega opnun og vöknun til sjálfsmeðvitundar. Einnig eru margir andlegir kennarar sem miðla reynslu sinni, þekkingu og visku til til fólksins. Efnið sem hægt er að nálgast er af ýmsum toga og fjallar um ólíka hluti. Hver kennari kennir og skrifar með sínu lagi og með sinni nálgun og oftast er hann að lýsa og miðla sinni eigin andlegu för og þeim áskorunum sem á veginum verða.

Það eru margar hindranir á leiðinni og margt sem reynir að draga úr för þinni og fá þig til að stoppa og hætta við. Því þarf mikla staðfestu og hugrekki til að komast alla leið og upplifa fulla andlega opnun sem er frelsi frá blekkingum og ótta hins jarðneska lífs og að fá að upplifa hamingju og kærleika án skilyrða sem er sprottin úr hjartanu.

Í upphafi farar mætti spyrja „Hvar finn ég besta kennsluefnið? Hvar finn ég sannan andlegan kennara?“ Námsefnið getur verið afar ólíkt og jafnvel verið í andstöðu við hvert annað. Tveir andlegir kennara geta kennt ákveðin hlut á ólíkan hátt og þeir gætu jafnvel haft sitthvora skoðunina á efninu. Eftir situr nemandinn og spyr „Hver hefur rétt fyrir sér? Hverjum er að treysta?“ Hver og einn þarf að treysta sínu eigin innsæi og tilfinningum, að læra að hlusta á tilfinningarnar í brjóstinu því þar liggur sannleikurinn og svörin við því hvað sé rétt og hvað sé rangt.

Þegar þú lest andlegar bækur eða hlustar á andlegan kennara er gott að vera meðvitaður um tilfinningar sínar í brjóstinu. Ef þú upplifir léttleika og kærleika í brjóstinu þá er kennslan rétt og hæfir þér en ef þú upplifir ótta og ónot þá er hún ekki að henta þér. Sönn andleg kennsla á að skapa nemandanum innri ró og frið og kærleika í brjóstið en ekki ótta og ónot. Eftir því sem þú ferð lengra í andlegum málefnum þá verður sjálfsmeðvitundin þín sterkari sem og tilfinningar þínar í brjóstinu. Þú munt læra að hlusta á þær og nota þær sem vegvísi á för þinni. Þú munt læra að forðast það sem ekki hentar og skapar þér ónot innra með þér og á sama hátt muntu dragast að því sem hentar þér og þinni för. Það er ekki allt sem sýnist í þessum heimi og að lokum ert það þú einn sem getur dæmt hvað það er sem hentar þér best. Þú munt einnig læra að þekkja sannleikann þegar hann birtist og þannig muntu þekkja blekkingarnar. Innsæi þitt er þinn áttaviti sem hefur ávallt verið til staðar,  hlustaðu á innsæið og notaðu það þér til framdráttar í lífinu. Þetta á við allt sem þú gerir í lífinu og þetta mun hjálpa þér að taka réttar ákvarðanir í lífi þínu og starfi.

Viljirðu njóta aðstoðar andlegs kennara þá þarftu að vanda valið því sannur andlegur kennari er vandfundinn en þú munt finna það í brjósti þínu þegar þú hefur fundið þann kennara sem er sannur og hentar þér og þinni för. Hann mun varða leið þína eftir hinum andlega vegi og mun miðla til þín reynslu af sinni för. Hver og einn þarf að lokum að ganga sinn andlega veg til andlegrar opnun og það er undir hverjum og einum komið hvenær förin hefst og hversu hratt er farið yfir.

Andlegur kennarinn mun birtast úr óvæntri átt og leiðbeina þér þegar þú ert tilbúinn. Lærðu sem fyrst að hlusta á innsæi þitt og tilfinningar og þær munu beina þér rétta leið og hjálpa svo för þín verði farsæl. Varast skaltu að láta nokkurn leiða þig í villu sem tefur för þína og seinkar. Vertu ávallt hugrakkur og staðfastur nemandi og þínar óskir munu rætast og þú munt öðlast hamingjusamt og kærleiksríkt líf án skilyrða sem engin getur tekið frá þér. Þú öðlast innri ró og jafnvægi og öðlast styrk og getu til að takast á við verkefni lífsins og þær áskoranir sem á vegi þínum verða í lífi þínu og starfi.

Þú munt síðar hjálpa öðrum að öðlast hamingju og kærleika með nærveru þinni og orðum.  

0 Comments

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *